JCI tilkynnti fyrir stuttu að Guðjón Már Guðjónsson (oft kenndur við OZ) hefði verið valinn í hóp þeirra 10 einstaklinga sem JCI viðurkennir á heimsþingi sínu í nóvember sem “The Outstanding Young People”. Guðjón fær viðurkenningu í flokki viðskipta og frumkvöðla. Guðjón er annar “Framúrskarandi ungi Íslendingurinn” sem kemst í 10 manna hóp á Heimsþingi JCI frá því að JCI á Íslandi fór að taka þátt í keppninni.
JCI Ísland hefur tekið þátt í TOYP óslitið frá árinu 2002.
Viðurkenningin nefnist á íslensku “Framúrskarandi ungir Íslendingar” og er Forseti Íslands verndari verðlaunanna. Í tilnefningunni segir um Guðjón að frá 18 ára aldri hafi hann verið frumkvöðull sem hafi látið verkin tala. Hann hefur á sl. 20 árum stofnað um 10 fyrirtæki sem mörg hafa náð langt á sínu sviði. Guðjón lætur ekki á sig fá þó á móti blási en heldur ótrauður áfram. Með reynslu sinni og innsæi hefur hann lagt mikið af mörkum til hugarfarsbreytinga í íslensku samfélagi á erfiðum tímum með aðkomu sinni að Hugmyndaráðuneytinu.
TOYP tilnefningar í ár voru á þriðja hundrað frá tæplega 100 löndum. Í dómnefnd sátu Georg Kell, framkvæmdastjóri Global Compact hjá Sameinuðu þjóðunum, Anthony Parkes, framkvæmdastjóri Alþjóðaverslunarráðsins, Timothy E. Wirth, forseti styrktarsjóðs Sameinuðu þjóðanna og heimsforseti JCI 2009, Jun Sup Shin.
JCI eru samtök fólks á aldrinum 18-40 ára. Markmið og tilgangur JCI er að stuðla að jákvæðum breytingum í samfélaginu með því að þroska leiðtogahæfileika og félagslega ábyrgð félagsmanna sinna. Innan JCI eru starfandi 200 þúsund félagar í um 120 þjóðlöndum. JCI hefur verið starfandi á Íslandi frá árinu 1960.