Síðastliðinn laugardag 8. janúar 2011 fór fram 1. framkvæmdastjórnarfundur JCI Íslands. Þarna tengjast saman árin 2010 og 2011, með því að landsstjórnir, embættismenn landsstjórna og forsetar og stjórnarfólk úr aðildarfélögunum hittast, gera upp árið 2010 og ræða hvað sé framundan á árinu 2011.
Árni Árnason landsforseti 2010 fór yfir starfsemina á árinu sem var að líða og þakkaði öllum þeim sem gerðu árið 2010 að frábæru ári. Starfið mótaðist að miklu leyti af 50 ára afmæli hreyfingarinnar. Landsþingið var haldið í Reykjanesbæ, margir erlendir gestir sóttu þingið heim. Árni sagði frá fundi með forseta Íslands sem hefur stutt hreyfinguna m.a. í gegnum TOYP. Haldin var Nordic Academy á Íslandi í lok sumars. Forseti Íslands heiðraði samkomuna með nærveru sinni. Menningarnótt var haldinn í JCI húsinu sem var sannkallaður tónlistarviðburður. Viktor Ómarsson fór fyrir hönd JCI á European Academy. Heimsforseti og varaheimsforseti sóttu báðir landið heim á árinu. Landsforseti fór á Evrópuþing, heimsþing og danska landsþingið. Leitað hefur verið til samstarfsaðila m.a. N1 um viðskiptakort (nr. JCI hjá N1 er 345), Vodafone um nettengingu í Hellusundið og danska fyrirtækið Ipaper um útgáfu vefrits. Fimmtudagsfræðsla var haldin reglulega yfir allt árið. Á árinu var farið yfir gamalt dót og gögn sem eru í Hellusundi og verið er að vinna í að skrásetja þau.
(mynd af Árna: Ragnar F. Valsson)
Forsetar aðildarfélaganna fluttu skýrslu um liðið ár og það sem framundan væri. Meginverkefni ársins 2011 verða félagaöflun og að halda úti góðu félagsstarfi. Þetta er í samhljóm við megináherslu landsstjórnar 2011 en Ingólfur Már Ingólfsson, landsforseti, kynnti framkvæmdaáætlun ársins. Annað sem má nefna er að gefin verða út rafræn fréttablöð, ungir framúrskarandi einstaklingar verða viðurkenndir á árinu (TOYP verkefnið), alþjóðlegur varaforseti mun heimsækja landið, samstarfinu við Eignaumsjón um húsfundi verður haldið áfram og landsþing þetta árið verður í umsjón JCI Lindar dagana 23. – 25. september. Þetta árið verður Evrópuþingið haldið í Tarragona í Katalóníu dagana 1. – 4. júní og heimsþingið verður í Brussel í Belgíu, dagana 31. október – 5. nóvember.
Ingólfur landsforseti lauk fundinum með því að vísa í lagið Brekkan eftir Hörð Torfason, orð sem eiga ávallt vel við og sérstaklega svona í upphafi nýs starfsárs:
Hugurinn ber mig hálfa leið, hitt er bara vinna.
Landsstjórn 2011 skipa:
Ingólfur Már Ingólfsson, landsforseti
Þorsteinn G. Jónsson, landsritari
Hanna Kristín Másdóttir, landsgjaldkeri