Kæru félagar!
(myndir í greininni eru fengnar frá Facebook síðum hjá Ragnari F. Valssyni og Kristínu Grétarsdóttur, ein mynd er svo frá Þorsteini G. Jónssyni)
Á sunnudag lauk frábæru landsþingi sem verður minnst fyrir svo margt glæsilegt. “Eldheitt landsþing” er hugtak sem heyrist æ meir en það á margt meira við: samheldni, gleði, gagn og gaman. Þarna komu saman um 40 JCI félagar sem ræddu um stöðuna í dag og framtíðina. Kynslóðir mættust, landsþingsgestir fræddust og skemmtu sér saman og í ljós kom alveg ótrúlega samheldin hreyfing. Landsþingið var hið allra glæsilegasta og aðstaða á Hótel Brú til fyrirmyndar. Þröngt mega sáttir gista segir eitthvert máltækið og ekki heyrðist neitt neikvætt frá gestum … enda engin ástæða til.
Allir fengu eitthvað fyrir sinn snúð. Á föstudegi var þingfundur og svo smá “samtal/námskeið” með alþjóðlegum varaforseta Guillaume Aubanel. Um kvöldið var þemapartý og morðgáta þar sem landsþingsgestir skemmtu sér langt fram á nótt. Laugardagurinn byrjaði með hamingjunámskeiði landsforseta JCI Danmerkur, Jon Kjær, og fannst mörgum það vera hápunktur þingsins (en nota bene: hápunktarnir voru margir!). Meirihluti þinggesta tók svo þátt í miklu útinámskeiði fyrir utan hjá Hótel Brú á meðan nokkrir senatorar og erlendir gestir fóru í glæsilega skoðunarferð um nærliggjandi svæði. Síðar um daginn sóttu landsþingsgestir fyrirlestur um stefnumótun og þar á eftir fór fram svokölluð Belgíukynning þar sem hægt var að smakka á sex tegundum belgískra bjóra, belgísku konfekti og kökum.
Stuttu síðar hélt landsforseti kokkteil þar sem hann þakkaði gestum fyrir komuna og JCI Lind fyrir flotta umgjörð á þinginu. Hápunktur landsforsetakokkteilsins var útnefning senators Árna Árnasonar sem heiðursfélaga JCI Íslands.
Að loknum kokkteilnum fengu gestir sér svo sæti í matsalnum þar sem fram var borinn aðalrétturinn og dagskráin hélt áfram. Það var alltaf eitthvað um að vera. Og til að kóróna glæsilega umgjörð þá kom að því sem gestir kalla eitt það flottasta (alla vega heitasta!) við þingið: slökkviliðið mætti á svæðið og vakti mikla lukku hjá þinggestum, sérstaklega þeim sem héldu í fyrstu að um væri að ræða dansara frá Chippendales. En engin var hættan og þessi uppákoma vakti mikla lukku. Gestir grínuðust með það að ostakakan í eftirrétt hefði verið flambereruð!
Hápunktarnir voru margir, eins og áður sagði, en sá stærsti var án efa útnefning Hönnu K. Másdóttur til senators. JCI Esja stóð glæsilega að útnefningunni og má sannarlega segja að Hanna hafi verið virkilega hrærð og orðlaus yfir útnefningunni. Velkomin í hóp senatora, Hanna! Þess má geta að útnefning til senators er æðsta viðurkenning JCI hreyfingarinnar til félagsmanna og númer Hönnu er 70910.
Kjör landsstjórnar 2012 var staðfest með táknrænum hætti. Landsforseti 2011 veitti tvær landsforsetaviðurkenningar (Jóhanna Magnúsdóttir og Einar Valmundsson, sem voru veislustjórar kvöldsins) og einnig voru veitt verðlaun fyrir besta nýliðann á þingi (Einar Gissurarson) og kvæðakút (Heiða Dögg Jónsdóttir). Að lokinni formlegri dagskrá tók við náttfatapartý sem stóð fram eftir nóttu.
Sunnudagurinn hófst með því að landsstjórn 2012 fékk þinggesti til að hreyfa sig dálítið í morgunsárið og við tók stefnumótunarfundur í umsjón Viktors Ómarssonar, landsforseta 2012. Eftir hana var liðurinn “önnur mál” kláraður og þingforseti sleit formlega þingfundi kl. 13:00 á sunnudegi. Fólk fór svo að tygja sig af stað heim, ánægt og þreytt eftir viðburðaríka helgi. Landsforseti 2011, Ingólfur Ingólfsson, kvaðst fara frá þingi fullur af jákvæðri orku og minnti gestina að lokum á það að “feisa fram á við”.
Takk fyrir frábæra og samheldna helgi!