Helgina 7.-9. október sl. skellti ég mér, ásamt sambýlismanni /landsforseta, á landsþing JCI Danmerkur sem haldið var í Holstebro. Holstebro er staðsett á miðri eynni Jótlandi, sem er eins og allir vita stærsta eyjan í ríki Dana, og í bænum búa um 50 þús manns.
Við lögðum af stað eldsnemma morguns á fimmtudegi, til að hafa nú tíma í smá verslun í höfuðborginni… lentum rétt eftir hádegið í København. Á flugvellinum tók á móti okkur Landsforsetafrú JCI Danmerkur, Marie, en við höfðum ekki átt von á að við yrðum sótt á flugvöllinn svo það var afskaplega ánægjulegt.
Enn inni í flughafnarbyggingunni stigum við um borð í Metróinn, sem tók okkur alla leið í miðbæinn. En Landsforseti Dana og frú hans búa í nokkurra metra fjarlægð frá Kongens Nytorv og Nyhavn. Þar sem veðrið var nú ekkert sérstakt, nánast íslenskt rok og rigning, fannst mér þetta algjör snilld… þar til ég sá stigana í gamla, fallega húsinu sem þau búa í J en ég meikaði samt einhverjar ferðir hehe. Þau Marie og Jon Kjær buðu okkur að gista hjá sér eina nótt, þar til við færum á þingið, og var það mjög gaman og þökkum við þeim kærlega gestrisnina. Þá um kvöldið fórum við m.a. út að borða á hefðbundnum dönskum veitingastað, sem ég man ekki nafnið á… en hann var staðsettur 2 dyrum frá heimili þeirra. Ásamt okkur fjórum var með í för landsforseti JCI Tyrklands, Gülboy, og að sjálfsögðu var borðað gammeldags „flæsk“ með kartöflum, rauðrófum og hvítri steinseljusósu , og nota bene þetta var „all-you-can-eat“ og borið á borðið meðan einhver hafði lyst J
Á föstudagsmorgun leigðum við bíl og keyrðum sem leið lá út úr borginni og í vesturátt að Jótlandi. Hvorugt okkar hafði komið til Jótlands fyrr og langaði til að sjá landið, allavega eins og hægt er úr bílglugga (á 130 km hraða…). Og komumst að því að Danmörk er ekki alveg flöt eins og pönnukaka eins og manni hafði verið talin trú um í landafræðinni í gamla daga… það voru einhverjar brekkur og svo aðeins meiri brekkur, ekki alveg hægt að kalla þetta hæðir eða hóla – en mjög fallegt. Við stoppuðum í Odense og sáum elsta hluta bæjarins, sem er mjög flottur, lítil sæt hús og þessar týpísku hlöðnu steingötur. Þar sáum við m.a. hús Hans Christians Andersens og safn tileinkað ævi hans og samferðamanna hans. Það var mjög áhugavert. Ekki vissi ég t.d. að H.C. Andersen hefði verið 20 sm hærri en meðalmaður á sínum tíma (185 sm)og þótti mjög fráhrindandi í útliti, eiginlega bara ljótur! En hann var góður við börn og var sífellt að skemmta fólki og segja sögur. Reyndi fyrir sér í ýmsu m.a. sem leikari, söngvari og dansari áður en ritlistin varð ofan á. Inni í safninu mátti finna sýnishorn af bókum hans á mörgum tungumálum og síðast en ekki síst litlu klippimyndirnar sem hann er frægur fyrir. Innan um pínu-pínulitlar klippimyndir og dúkkulísur, lágu klunnaleg skæri sem voru víst í eigu rithöfundarins, og var erfitt að ímynda sér hvernig hann hafi farið að því að klippa út svona lítil listaverk (sum minni en tíkall) með þessari græju! Ég hefði varla treyst mér til að klippa þráðbeint eftir línu með þeim.
En áfram héldum við í vesturátt og eftir að hafa farið yfir bæði Stóra-beltisbrúna og Litla-beltis, fórum við að nálgast áfangastað. GPS tækið kom sér mjög vel og stýrði förinni áfallalaust. Við komum til Holstebro rétt fyrir fimm seinnipart föstudags, og þurftum að vera snögg að græja okkur í gala klæðnaðinn, því landsforsetakokteill átti að hefjast kl.18 í ráðhúsi bæjarins, og rúta átti að sækja okkur 20 mín fyrr á hótelið. Hótelið var staðsett alveg í útjaðri bæjarins. En þetta hafðist allt á tilsettum tíma, þó rútan hafi verið sein og við rétt náðum 10 mín með bæjarstjóranum. Eftir það var öllum smalað í rútuna og tilbaka, þar sem við tók hefðbundin hátíðardagskrá með frábærum mat, ræðuhöldum og viðurkenningum.
Á laugardeginum voru námskeið og fundir eins og tilheyra landsþingum, en þar sem allt fór fram á dönsku, og skóladanskan okkar orðin vel ryðguð, létum við nægja að fylgjast með framboðsræðum þeirra sem í framboði voru til landsstjórnar næsta starfsár (kákus) og þóttumst ægi klár þegar við náðum samhengi í ræðunum og gátum túlkað að hluta fyrir „hina útlendingana“ J en á þingið mætti einnig landsforseti Lettlands,Ivars Racino, sem er mjög skemmtilegur og hress náungi (eins og allir JC félagar).
Á laugardagskvöldið var svo alvöru partí, og Danir kunna sko vel að skemmta sér og sínum. Þema kvöldsins var skapandi og frumlegt, og sýndu búningar félaganna að það var eitthvað sem nóg er til af í hreyfingunni, eins og sjá má á meðfylgjandi myndum. Einnig mátti finna ýmis frumleg nöfn á öli á barnum, eins og „Santas butt“ og „Reindeer droppings“ greinilegt að Danir eru farnir að undirbúa jólin J
Á sunnudegi var svo þingfundur kláraður og tók þar m.a. til orða okkar frábæri landsforseti og hélt þrumuræðu yfir lýðnum um persónulega reynslu sína í JCI og stöðu hreyfingarinnar á Íslandi, í lokin var svo tilkynnt um kosningu í landsstjórn og embætti næsta starfsárs, viðtakandi landsforseti Sören fékk að prófa keðjuna við hátíðlega athöfn og tók sig ákaflega vel út eins og fyrirrennarar hans og kollegar allir (merkilegt að slíkir skartgripir séu ekki vinsælli). Eftir það var léttur löns og svo keyrsla tilbaka til Køben, þaðan sem við áttum flug til Íslands um kvöldið. Það voru þreyttir en sælir ferðalangar sem lentu í Keflavík síðar um kvöldið (nóttina að dönskum tíma), ánægðir að komast heim en með vott af depurð yfir að allt væri yfirstaðið, því þetta var og er alltaf svo ógisslega gaman J
Að lokum hvet ég alla sem þetta lesa, til að leggjast í ferðalög ef tækifæri bjóðast, og heimsækja JCI félög og félaga fjær og nær, því ferðalög gera okkur víðsýnni og umburðarlyndari gagnvart öðrum, eða eins og snillingurinn H. C. Andersen orðaði það svo vel „að ferðast – er að lifa“.
Góða ferð, og góða skemmtun!
Kveðja Ásta Gústafsdóttir, lansafrú 2011 😉