Föstudagskvöldið 11. nóvember fór fram lokakvöld Ræðu 1 sem JCI Esja skipulagði. Umræðuefni kvöldsins var: Lagt er til að fjölkvæni/fjölveri verði leyft á Íslandi. Klassískt umræðuefni sem alltaf er gaman að hlusta á. Lið tillöguflytjenda skipuðu þau: Heiða, Birna og Jóhanna og liðsstjóri var Loftur Már. Lið andmælenda skipuðu þau: Salka, Brynja og Eyjólfur og liðsstjóri var Árni Árna. Allir ræðumenn stóðu sig með prýði, buðu upp á skemmtilegar ræður og áhugaverðar nálganir á efnið. T.d. vitnaði Salka, sem kosin var ræðumaður kvöldsins, til ferðalaga foreldra sinna og Eyjólfi var tíðrætt um tengdamæður og hvernig það væri að eiga þær nokkrar. En að lokum báru tillöguflytjendur sigur úr býtum, rök þeirra um fjölbreytileika og umburðarlyndi urðu ofaná í þetta skiptið. Leiðbeinendur á námskeiðinu voru þau Arna Gunnars, Einar Valmunds og Þórhildur Önnu. Aðrir sem komu að kvöldinu voru: Siggi Sig sem umræðustjóri, Bjarkey og Margrét voru tímaverðir og í dómarasætin settust þau hjónakornin Birgit og Jói og Hrólfur Sig. Fullmæting hjá Sigurðssonunum þetta kvöldið. Mjög ánægjulegt var að sjá hversu margir komu og horfðu á keppnina, þegar mest var í seinni umferðinni fylgdust 20 manns með keppninni.
Keppnin sjálf fór fram í Félagsmiðstöðinni Frosta, Frostaskjóli, en að henni lokinni fóru allir niður í Hellusund þar sem úrslit voru tilkynnt og síðan blásið til partýs. Gott stuð var í Hellusundinu, svona eitthvað frammá nóttina.
Bestu þakkir til allra sem tóku þátt í kvöldinu, góð kvöldstund þar.