Fimmtudagskvöldið 8. nóvember var haldinn sameiginlegur félagsfundur aðildarfélaga JCI á Íslandi. Fundurinn var haldinn á notalegri efri hæð veitingastaðarins Happ í Austurstræti þar sem allir hærri en 120 cm léku limbó við súðina. Fundarstjóri var Þórey Rúnarsdóttir og fundarritari Jóhanna Magnúsdóttir.
Tilkynnt var að leikvallaverkefninu hefur verið frestað fram á vor og ítrekaði Sigurður að ef fólk hefur hugmyndir að leikvöllum sem mega muna fífil sinn fegurri þá vill hann endilega heyra uppástungur. Akademíuhelgin sem haldin var í nóvember var jafnframt kynnt og farið yfir þær nýju kynningarleiðir sem hugmyndir urðu til að.
Nóg er af viðburðum á næstunni. Þann 22. desember hafa verðandi stjórnir boðað á jólahlaðborð, áramótapartýið góða þar sem Heiða og Einar fagna afmæli sínu og ætla jafnframt að nýta tækifærið til að styrkja Nothing but Nets. FS fundurinn verður haldinn 7. janúar þar sem nýjar stjórnir taka formlega við störfum. Að kvöldi 7. fara síðan fram landsstjórnarskiptin, bæði FS-fundurinn og landsstjórnarskiptin verða haldin í Frostaskjóli. Fimmtudaginn 12. janúar er stefnan tekin á höfuðborg Norðurlands þar sem JCI verður kynnt og slett úr klaufunum á laugardagskvöldinu, en þar er nýtt aðildarfélag að verða til. Ný akademíuhelgi verður 27-29. janúar þar sem personal leadership er tekið fyrir. Í óformlegri kosningu var ákveðið að þeir sem mæta taka persónuleikapróf sem unnið verður með um helgina.
Hanna Kristín vann After Eight í jólahappdrætti fundarins og átti sennilega einna eftirminnilegustu söguna þegar allir stóðu upp og sögðu skemmtilegar sögur frá jólunum.
Harpa Grétarsdóttir, sérlegur fréttaritari heimasíðunnar og félagi í JCI Esju