Eitt af helstu hlutverkum landsforseta hverju sinni er að vera talsmaður JCI Íslands á erlendri grundu. Dagana 8.–10. september fór ég til Litháen, einmitt í þessum erindagjörðum. Aðalerindið var að sækja forsetafund Norræna hópsins sem starfræktur er innan raða alþjóðlegu JCI hreyfingarinnar. Hópnum tilheyra Norðurlöndin fimm, Ísland, Noregur, Svíþjóð, Danmörk og Finnland, og síðan Eystrasaltslöndin þrjú, Eistland, Lettland og Litháen. Norræni hópurinn hittist að jafnaði fjórum sinnum yfir starfsárið. Á fundunum gefa löndin m.a. skýrslur af starfi sínu, miðla hvort öðru upplýsingum, ræða möguleg framboð í heimsstjórn og boð í þinghald og önnur sameiginleg hagsmunamál hópsins. Á fundinum nú í Litháen gáfu t.d. Danirnir skýrslu um Nordic Academy sem þeir héldu nú í lok ágúst og tókst með eindæmum vel. Á næsta ári munu Eistar sjá um akademíuna og rætt var hvernig best væri að miðla áfram upplýsingum milli landanna þannig að gæði akademíunnar myndu haldast. Einnig fór töluverður tími í umræðu um regluverk JCI training eða námskeiðahaldsins innan JCI. Næst mun hópurinn hittast á fundi á heimsþingi í Brussel.
Þessi haustfundur norrænna hópsins er vanalega haldinn í tengslum við landsþing þess lands sem heldur fundinn hverju sinni. Þess má geta að í fyrra var fundurinn haldinn á Íslandi á sama tíma og landsþing og 50 ára afmæli JCI Íslands. Ásamt því að sækja fundinn tókum við að hluta þátt í landsþingi þeirra Litháa sem að þessu sinni var haldið í borginni Siauliai, sem er fjórða stærsta borgin í Litháen. Á föstudeginum var skipulögð skoðunarferð fyrir okkur. Við byrjuðum daginn með heimsókn í ráðhúsið og hittum þar borgarstjórann, síðan fengum við skoðunarferð um Nato herstöð sem staðsett er í bænum. Þar eru staðsettir núna nokkrir tugir danskra hermanna ásamt tveimur herþotum. Síðan skoðuðum við gamla myllu og fengum að kynnast því hvernig brauðgerð tíðkaðist. Að lokum var keyrt með okkur á hæð krossanna (Hill of Crosses). Ég hafði aldrei áður heyrt talað um þessa hæð. Fólk kemur hvaðanæva að og setur krossa á hæðina eða umhverfis hana, talið er að það boði gæfu. Að skoðunarferð lokinni fór fram svakalegur körfuboltaleikur milli heimamanna og einvala liðs okkar landsforsetanna og viðtakandi landsforseta hinna landanna. Spilaðar var fullur leiktími eða 4 x 10 mínútur. Heimamenn fóru með öruggan sigur að hólmi en það má segja að sigur okkar hafi verið sá að komast í gegnum allan leikinn þokkalega óskaddaðir en undirritaður var samt alveg örmagna á eftir.
Á laugardeginum fór síðan fram skráning og setning þingsins, þingfundur, námskeið, úrslit í ræðukeppni og síðan lokahóf um kvöldið. Svipað fyrirkomulag og við þekkjum á okkar landsþingi. Þetta er í fyrsta skipti sem ég mæti á landsþing hjá öðru landi, það var mjög sérstakt að sitja út í salnum og skilja ekki hvað sagt var. Upplifunin var samt góð og helgin skemmtileg. Mæli ég með því að þið prófið einhvern tímann að mæta á landsþing annars JCI lands.
Á sunnudeginum héldum við síðan heim á leið í glaða sólskini með viðkomu í höfuðborg Lettlands, Riga, flogið í gegnum Stokkhólm og síðan lent á gamla góða skerinu um miðnætti. Gott JCI ævintýri að enda komið.
Viðtakandi landsforseti JCI Danmerkur, Sören Greve Olsen, klippti saman myndband um ferðina og setti inná YouTube, sjá slóðina: http://www.youtube.com/watch?v=mpBeyCHtZ2Y.
Með ferðakveðjum,
Ingólfur Már Ingólfsson
Landsforseti JCI Íslands 2011