Fimmtudaginn 17 nóvember var haldinn sameiginlegur félagsfundur aðildarfélaga JCI í sal félagsheimilisins Frosta, Frostaskjóli. Fundarstjóri var Heiða Dögg Jónsdóttir og fundarritari Þórey Rúnarsdóttir.
Frábær gestur kíkti á okkur, Peter Anderson, stofnandi og eigandi Follow the Fun. Peter ræddi um tungumálakennslu, breyttar áherslur í menntakerfinu og hvernig hægt er að einstaklingsmiða nám til að koma til móts við fólk með lesblindu eða aðra námsörðugleika. Þeir sem hafa áhuga á að fræðast nánar um nálganir Peters ættu endilega að kíkja á síðuna hans www.peteranderson.name þar sem hann kynnir ýmis spennandi verkefni.
Fundarhald hélt síðan áfram með þéttsetna dagskrá þar sem margir tóku til máls. Litið var yfir síðasta árið með myndasýningu og dagskrá komandi árs kynnt. Það má með sanni segja að margt spennandi sé í býgerð og ber þar helst að nefna landsþingið sem haldið verður með glæsibrag í byrjum september 2012 og við hvetjum alla til að skrá sig sem fyrst. Einnig verða allskyns námskeið í boði, t.d fundarstjórnun og fundarritun, erlendir fyrirlesarar, þorrablót, landstjórnarskipti auk þess sem heimsþing og Evrópuþing eru með spennandi dagskrá og vonandi að sem flestir sjái sér fært að kíkja út á komandi ári.
Starfi ársins sem er að líða er þó hvergi nærri lokið svo félagar eru hvattir til að fylgjast vel með í nóvember og desember þar sem mikið verður í gangi. Ber þar fyrst að nefna íslensku akademíuna sem fram fer 26. – 27. nóvember næstkomandi og er skráning í fullum gangi. Einnig er á dagskrá konfekt- og brjóstsykursgerð fyrir jólin, ræðuveisla, fyrirtækjaheimsókn, jólatréshittingur og partý í lok nýliðanámskeiðs. Í lok desember verður JCI með flott jólagóðverk þar sem við munum finna leikvöll sem gera þarf upp og taka hann algjörlega í gegn. Vonandi vilja sem flestir nýta árstíðina og gefa af sér í formi vinnu.
Boðið var uppá frábærar kræsingar sem Lauga bakaði fyrir okkur bæði í hléi og eftir fund og fóru því vonandi allir heim saddir og sáttir.
(Guðbjörg Ágústsdóttir, JCI Esju)