Hátt í 20 manns mættu í Hellusundið þann 14.janúar síðastliðinn til að vera viðstödd aðalfund JCI Reykjavíkur. Fundurinn byrjaði á því að fráfarandi forseti JCI Reykjavíkur, Einar Valmundsson, gaf skýrslu um stjórnarárið 2012 ásamt því að fráfarandi gjaldkeri, Guðmundur Gauti, lagði fram ársreikning síðasta árs. Ljóst er að ný stjórn gengur að góðu búi.
Einar Valmundsson veitti einnig viðurkenningar fyrir góð störf til sinnar stjórnar ásamt því að Silja Jóhannesdóttir, viðtakandi forseti, var veittur sá heiður að fá viðurkenningu fyrir að vera „máttarstólpi“ félagsins. Verðlaunin voru steðji sem komið verður í nýjar hendur á næsta aðalfundi, að ári liðnu.
Stjórnarskiptin fóru svo fram, en kjörin stjórn 2013 eru þau;
Silja Jóhannesdóttir, forseti,
Auður Steinberg Allansdóttir, ritari,
Einar Örn Gissurarson, gjaldkeri,
Ingibjörg Magnúsdóttir, varaforseti,
Helgi Laxdal Helgason, varaforseti og síðast en ekki síst,
Kristín Grétarsdóttir, varaforseti.
Kristín Grétarsdóttir var kjörin inn í stjórn á aðalfundinum.
Framkvæmdaáætlun stjórnar 2013 var kynnt og gaman er að geta sagt frá því, að margir skemmtilegir viðburðir, hópefli, fræðsla, námskeið og margt fleira, fyllir hvern mánuð ársins. Félagar JCI Reykjavíkur geta því beðið spenntir eftir komandi ári.
Þema kvöldsins var „grænt og froskar“ og lýsti ný viðtekin stjórn yfir því að þau hoppuðu inn í framtíðina, spennt og áköf, með einkunnarorðin sín þrjú: framsýni, fagmennska og framtakssemi, að vopni.
– Auður Steinberg