JCI félagar byrjuðu febrúar á því að fjölmenna á Þorrablót. Kvöldið byrjaði á léttum leik ásamt fordrykk og tóku svo veislustjórarnir Gunnar Þór og Ingibjörg við. Borinn var fram Þorramatur ásamt minna hættulegum kjúkling fyrir kjúklingana sem þorðu ekki í súra hrútspunga og þess háttar. Fór kvöldið fram með leikjum, dansi og almennri gleði og er hægt að segja að fólk skemmti sér almennt vel í svartnættinu.
Um miðjan mánuðinn fengu Esjufélagar svo létt áfall þegar þeim barst stefna í nafni JCI. Ekki þurfti þó að hafa áhyggjur því var stefnan liður í fundarboðakeppni Esjunnar og var því eingögnu verið að stefna fólki á félagsfund.
Félagsfundurinn fór svo fram 19. febrúar og var með heldur óvenjulegu sniði, en byrjaði fundurinn á stuttri hugleiðslu. Næst á dagskrá var að Fanney og Margrét Helga stjórnarmeðlimir héldu kynningar um sig til að leyfa öðrum félögum að kynnast sér betur. Hélt fundarstarf svo áfram með eðlilegum hætti þar til fundarmenn brugðu á leik áður en fundi var slitið.
Framundan er æsispennandi mælskukeppni og ákvað JCI Esja að halda undankeppni fyrir hana. Umræðuefnið eru kjörorð heimsforseta eða „Dare to Act“ sem útleggst á íslensku sem „Taktu af skarið“. Var sú keppni haldin 21. febrúar og var sigurveri Gunnar Þór og í öðru sæti var Nína, en fá þau bæði þátttökurétt í aðalkeppninni nú í mars.
– Harpa