- Upplýsingar
- Almennt
- Saga Junior Chamber á Íslandi
Saga Junior Chamber á Íslandi
Fyrsta stjórn
Fyrsta stjórn hreyfingarinnar var skipuð Ingvari Helgasyni sem var formaður og með honum í stjórn voru Hjalti Pálsson, Erlendur Einarsson, Haraldur Sveinsson og Ásmundur Einarsson. Ekki var mikið um starfsemi innan félagsins þetta fyrsta ár, utan bréfaskrifta milli Erlendar Einarssonar og Ingimars Liljenquist og Eric Stevenson sem var þá varaheimsforseti.
Ásmundur Einarsson var kjörinn formaður á fundi 17. janúar 1961. Með nýrri stjórn vaknaði hreyfingin af þeim dvala sem einkenndi fyrsta starfsár hennar. Aðalstarfsemi hreyfingarinnar fyrstu árin var fólgin í kynningu meðal félagsmanna. Fastir fundardagar voru fyrsti þriðjudagur í hverjum mánuði, þ.e. hádegisverðarfundir þar sem jafnan var boðið gestum sem fluttu framsöguerindi.
Stofnun
Þann 5. september árið 1960 var haldinn í Þjóðleikhúskjallaranum stofnfundur félags ungra kaupsýslumanna (Junior Chamber of Commerce). Á þessum fundi var ákveðin stofnun félags sem hlaut nafnið Junior Chamber of Iceland. Tildrög þessa fundar má rekja til bréfaskrifta, sem áttu sér stað milli Erlendar Einarssonar forstjóra SÍS og Lennart Edin í Svíþjóð, sem lýsti áhuga á stofnun JC hreyfingar á Íslandi.
Þessi bréfaskrifti urðu til þess að í maí 1960 fara þeir Erlendur Einarsson og Pétur Pétursson til Svíþjóðar til að kynna sér starfsemina betur. Jákvæð niðurstaða þessarar ferðar varð til þess að Ingimar Liljenquist, sem þá var landsforseti í Svíþjóð var beðinn um að mæta á stofnfund á Íslandi.
Stofnun aðildarfélaga
Árið 1967 var sögulegt í þróun hreyfingarinnar. Þá var tekin ákvörðun um stofnun aðildarfélaga. Þann 14. september 1967 var stofnað fyrsta aðildarfélagið í Stapanum, þ.e. JC Suðurnes. 10. október sama ár var síðan JC Reykjavík stofnað á hádegisverðarfundi á Hótel Sögu. Stofnun JC Reykjavíkur yfirtók starfsemi þá sem áður var í JC Íslandi.
Eftir stofnun þessara aðildarfélaga og kosningu stjórna innan þeirra var fyrri stjórn JC Ísland orðin Landsstjórn og sameiningartákn. Á næstu árum fjölgaði aðildarfélögum í hreyfingunni, starfið varð markvissara. Nefndarstarf og verkefni fóru að skila félögunum reynslu og kynningu í þjóðfélaginu.
Námskeiðahald
Námskeiðahald í því formi sem við þekkjum í dag hófst árið 1968 með því að Ólafur Stephensen semur ræðunámskeið með aðstoð Richards Sewell félaga í Toastmasters á Keflavíkurflugvelli og var það fyrst haldið í febrúar 1969 hjá Toastmasters og fór það fram á ensku. Námskeiðið stóð yfir í níu kvöld og var þrískipt, fyrsti hluti þess fjallaði um ræðumennsku, annar hluti um framkomu í fjölmiðlum og að lokum var tekið fyrir undirstöðuatriði í fundarsköpum. Þetta námskeið verður síðan að “Ræðunámskeiði I” og haldið fyrst á íslensku árið 1970. Árið 1970 kemur nýtt námskeið “Leadership in Action” og 1971 hefst sérstakt námskeið í fundarsköpum.
Ræðukeppnir
Í framhaldi af nýjum aðildarfélögum og fleiri félagsmönnum verður þörf á samskiptum og samvinnu til að halda hreyfingunni saman. Einn þáttur í þessu var keppni aðildarfélaganna í Mælsku- og rökræðukeppni landsstjórnar. Keppnin fór fyrst fram árið 1973 eftir reglugerð sem hét “Rökræður Junior Chamber”. Í henni var gert ráð fyrir sex áhersluþáttum sem dæma átti eftir og voru þau eftirfarandi:
JC félagar á Íslandi tóku þátt í að koma á fót ræðukeppni framhaldsskólanna sem í dag er nefnd MORFÍS.
Síðastliðin ár hafa JCI félagar á Íslandi verið sigursælir á ræðukeppnum erlendis, bæði í Mælskukeppni einstaklinga sem og í rökræðukeppnum “Debating”.
Konur í hreyfinguna
Önnur þáttaskil verða í hreyfingunni árið 1977. Fram til þess tíma hafði hreyfingin fyrst og framst verið félagsskapur karlmanna, en þann 3. maí 1977 gengur fyrsta konan í JC Reykjavík en það var Valgerður Sigurðardóttir. Þetta gekk ekki átakalaust fyrir sig og skiptust menn í hópa með og á móti þessari ásókn kvenna í hreyfinguna. Þarna varð þátttaka kvenna staðreynd í verki en rétt er að geta þess að áður hafði kona verið skráður félagi í JC Akranesi en ekki starfað sem neinu nam.
Með þessu var brautin rudd og 6. apríl 1978 var stofnað fyrsta aðildarfélagið sem eingöngu var skipað konum þ.e. JC Vík og var fyrsti forseti þess Þórhildur Gunnarsdóttir.
Eigið húsnæði
Höfuðstöðvar Junior Chamber Íslands eru að Hellusundi 3 í Reykjavík. JC hreyfingin eignaðist húsið þann 2.maí 1987 í landsforsetatíð Mörtu Sigurðardóttur. Starfsemi hreyfingarinnar hefur verið á ýmsum stöðum í húsinu frá þeim tíma en í dag hefur hreyfingin aðsetur á fyrstu hæð hússins. Þar er funda- eða námskeiðsaðstaða fyrir 15-30 manns.
JC verður JCI Ísland
Á Landsþingi 2004 var nafni hreyfingarinnar breytt úr Junior Chamber Ísland í Junior Chamber International Ísland og var það gert í takt við önnur aðildarlönd JCI.