Verkefni & JCI Ísland
Stór partur af JCI starfinu er að skapa jákvæðar breytingar í samfélaginu. Við teljum að einstaklingur geti haft mikil áhrif á umhverfi sitt og hvað þá ef hann er með sterkt teymi eins og JCI á bakvið sig. JCI hvetur félaga eindregið til að standa upp og leysa úr vandamálum í stað þess að kvarta undan þeim. Ýmis virkilega flott og árangursrík samfélagsverkefni hafa myndast á þennan hátt, bæði innan lands sem utan. Hægt er að nefna sem dæmi herferðina „Á eftir bolta kemur barn“ sem byrjaði hjá JCI og barnfóstru námskeið Rauða krossins sem var gjöf frá JCI.
Ýmis verkefni hafa formast í gegnum tíðina og byggjast þau algjörlega á áhuga og hvata félaga hverju sinni. Verkefni sem hafa fest sig í sessi eru meðal annars verkefnin “Framúrskarandi ungir Íslendingar” og “Nothing but nets” sem eru gegnumgangandi á alþjóðavísu. Í þessum verkefnum er annars vegar verið að viðurkenna unga hæfileikaríka einstaklinga og hins vegar verið að safna fyrir malaríunetum og þannig bjarga mannslífum.
Með þessu stuðlum við að og virkjum frumkvæði einstaklingsins og gefum honum tækifæri á að öðlast dýrmæta reynslu og þekkingu á að stýra verkefnum sem nýtist svo á öðrum sviðum.
Við erum einnig með verkefni sem ekki eru bein samfélagsverkefni en gefa einstaklingum tækifæri til þess að læra verkefnastjórn, frumkvæði, stækka tengslanetið o.þ.h. Það eru stór og smá verkefni allt frá skipulagningu félagsfunda og fræðslufunda, að skipulagningu á stórum viðburð eins og Landsþing JCI Íslands sem er heillrar helgar viðburður sem krefst margra mánaða undirbúningsvinnu.
Dæmi um verkefni
Framúrskarandi ungir Íslendingar
Verðlaunin Framúrskarandi ungir Íslendingar sem veitt eru árlega af JCI Íslandi, eru fyrst og fremst hvatningarverðlaun til ungs fólks sem er að takast á við krefjandi og athyglisverð verkefni. Þetta er hvatning og viðurkenning fyrir ungt fólk sem kemur til með að hafa áhrif í framtíðinni.