Lög JCI Íslands

I. kafli: Almenn ákvæði

1. gr. Nafn hreyfingarinnar

Nafn hreyfingarinnar er Junior Chamber International Ísland, skammstafað JCI Ísland. Lögheimili þess og varnarþing er í Reykjavík. Hreyfingin er aðili að Junior Chamber International (JCI).

2. gr. Tilgangur, takmark og einkunnarorð

Starf hreyfingarinnar skal einkennast af tilgangi og einkunnarorðum JCI.

Tilgangur hreyfingarinnar í anda einkunnarorðanna er: Að veita ungu fólki tækifæri til að efla hæfileika sína með því að stuðla að jákvæðum breytingum.

Takmark JCI er: Að vera leiðandi alþjóðleg hreyfing ungra virkra samfélagsþegna.

Einkunnarorð JCI Íslands eru:

Það er skoðun vor:
Að trú veiti lífinu tilgang og takmark,
að bræðralag manna sé þjóðarstolti æðra,
að skipting gæðanna verði réttlátust við einstaklingsfrelsi og frjálst framtak,
að lög skuli ráða fremur en menn,
að manngildið sé mesti fjársjóður jarðar,
að efla og bæta mannlíf sé öllum verkum æðra.

Breyting á einkunnarorðunum er háð samþykki tveggja landsþinga. Tilgangur hreyfingarinnar í anda einkunnarorðanna skal vera: Að stuðla að framþróun alþjóðasamfélagsins með því að veita ungu fólki tækifæri til að efla leiðtogahæfileika sína, félagslega ábyrgð, frumkvæði og samkennd til að stuðla að jákvæðum breytingum. Hreyfingin starfar án tillits til stjórnmálaskoðana, trúarbragða, kyns, litarháttar eða þjóðernis. 

3. gr. Merki

Merki hreyfingarinnar skal vera merki alþjóðahreyfingarinnar Junior Chamber International(JCI) með nafni Íslands þar fyrir neðan og skal aðalmerkið vera eftirfarandi:

Merki JCI Íslands tekur breytingum eftir því sem alþjóðlegt merki JCI tekur breytingum.

II. kafli: Aðild að hreyfingunni

4. gr. Skilyrði fyrir aðild

Aðilar að hreyfingunni eru JCI félög sem hlotið hafa viðurkenningu landsstjórnar, og uppfylla eftirfarandi skilyrði:

  • Nafn félagsins hefjist á Junior Chamber International, skammstafað JCI.
  • Fjöldi félagsmanna sé við stofnun að minnsta kosti 20.
  • Félagið hefur sett sér lög sem landsstjórn staðfestir.
  • Félagið hefur valið sér forseta og stjórn.
  • Landsritara hafi borist félagatal aðildarfélags.
  • Aðildarfélög skulu uppfylla skilyrði Junior Chamber International.

5. gr. Aldurstakmörk

Aðildarfélög skulu framfylgja aldurstakmarki félagsmanna átján (18) til fjörtíu (40) ára. Þegar félagsmaður nær 40 ára aldri er honum heimilt að starfa út almanaksárið, að undanskildum fráfarandi forseta sem getur gengt embætti sínu út árið þrátt fyrir að hafa náð 40 ára aldri.

6. gr. Heimild til að útiloka aðildarfélag

Landsstjórn getur með ákvörðun, sem hlýtur samþykki 2/3 hluta stjórnarmanna útilokað aðildarfélag, fullnægi það ekki kröfum laga þessara eða það teljist ekki af öðrum orsökum hæft til aðildar.

III. kafli: Landsþing

7. gr. Þingfulltrúar og atkvæðavægi

Æðsta stjórn hreyfingarinnar er í höndum þingfundar landsþings. Fjöldi atkvæðisbærra fulltrúa á landsþingi skal vera 27 og skulu þeir skiptast þannig: Hver landsstjórnarmaður skal hafa 1 atkvæði og hvert löglegt aðildarfélag skal hafa 1 atkvæði fyrir aðild að hreyfingunni. Önnur atkvæði skiptast hlutfallslega milli aðildarfélaga í samræmi við fullgreidd félagsgjöld til JCI Íslands, sbr. 27. gr. laga þessara. Landsforseti, landsgjaldkeri og lögsögumaður reikna út atkvæðamagn aðildarfélaga. Í síðasta lagi 28 dögum áður en þingfundur hefst á landsþingi skulu aðildarfélög senda til landsstjórnar félagatal og ákvarðar það fjölda þingfulltrúa hvers aðildarfélags á yfirstandandi starfsári. Við útreikning skulu þau aðildarfélög sem næst eru því að fá einn viðbótarfulltrúa hljóta uppbótarsæti uns heildarfulltrúafjölda er náð. Í þeim tilvikum þar sem 2 eða fleiri aðildarfélög eiga rétt á síðustu uppbótarsætum skal þó fjölga fulltrúum og skulu bæði/öll hljóta uppbótarsæti. Tilkynningu um atkvæðamagn skal senda aðildarfélögum skriflega ásamt fundarboði landsþings skv. 6. gr. laga þessara. Fulltrúi má ekki greiða atkvæði í umboði annars fulltrúa, né heldur vera úr öðru aðildarfélagi. Hver fulltrúi hefur eitt atkvæði. JCI félagar án kjörbréfs hafa aðeins tillögurétt á þingfundum hreyfingarinnar. Umsjónarmenn landsstjórnar hafa þar málfrelsi.

8. gr. Kjörbréfanend og meðferð kjörbréfa

Í kjörbréfanefnd eiga sæti hverju sinni ritari, gjaldkeri og varalandsforseti með svið samfélags. Kjörbréfanefnd sendi aðildarfélögum eigi síðar en 21 degi fyrir þing sérstök kjörbréfaeyðublöð. Fyrir setningu landsþings skulu aðildarfélög leggja fram hjá landsgjaldkera útfyllt kjörbréf. Kjörbréfanefnd úrskurðar um gildi kjörbréfa skv. 5. grein og skilar landsþingi greinargerð um nöfn og tölu atkvæðisbærra fulltrúa við upphaf þess.

9. gr. Fundarboð landsþings og aukaþings

Fundarboð landsþings sendist í einu eintaki til hvers aðildarfélags með sannanlegum hætti a.m.k. 21 degi fyrir þing, fundarboði skal fylgja áfangaskýrsla landsstjórnarmanna og umsjónarmanna. Stjórnir aðildarfélaga skulu boða fulltrúa sína á þingið í samræmi við 5. grein. Í fundarboði sem samið er af landsstjórn skal tilkynna dagskrá sem liggur fyrir þinginu. Aukaþing eru haldin þegar landsstjórn álítur það nauðsynlegt eða ef a.m.k. helmingur fullgildra aðildarfélaga krefst þess. Fundarboð aukaþings er samið og sent á sama hátt og venjulegt landsþingsboð.

10. gr. Dagskrá þingfundar

Landsþing skal haldið síðustu heilu helgina í september ár hvert. Boð til landsþings skal berast landsforseta og vera í fullu samræmi við sérstaka reglugerð um þingboð. Landsstjórn sér um að reglugerðinni sé framfylgt.

Dagskrá þingfundar á landsþingi skal í það minnsta innihalda:

  1. Ávarp landsforseta, þingsetning.
  2. Lögð fram kjörbréf og fulltrúar kynntir.
  3. Staðfest skipan þingforseta, þingritara og tveggja atkvæðateljara.
  4. Staðfest lögmæti þingboðs og þings.
  5. Umræður um áfangaskýrslur landsstjórnarmanna og umsjónarmanna.
  6. Áfangaskýrslur aðildarfélaga, umræður.
  7. Lagabreytingar
  8. Kosning landsforseta.
  9. Kosning varalandsforseta, landsgjaldkera og landsritara.
  10. Kosning viðtakandi landsforseta.
  11. Ákvörðun um félagsgjald til JCI Íslands.
  12. Tilnefningar til starfa á vegum landsstjórnar.
  13. Kynning á framboðum og boðum í viðburði fyrir hönd JCI Íslands.
  14. Kosning tveggja skoðunarmanna og tveggja til vara.
  15. Kosning tveggja trúnaðarmanna
  16. Framfarasjóður og Nýsköpunarsjóður.
  17. Stefnumótun/langtímaáætlun.
  18. Ákvörðun um næsta þing.
  19. Önnur mál.
  20. Afhending Kvæðakúts og annarra viðurkenninga.
  21. Staðfesting á kjöri næstu landsstjórnar
  22. Þingslit

Ávörp gesta geta farið fram á hverjum þeim atburði þinghalds sem landsforseti ákveður. Fundargerð sendist fulltrúum innan mánaðar frá lokum þings, undir umsjón ritara landsstjórnar. Þingforseti og atkvæðateljarar eru ekki fulltrúar á þingfundi.

11. gr. Atkvæðagreiðslur og kosningar í embætti

Á þingfundi landsþings fara atkvæðagreiðslur fram með handauppréttingu nema fundurinn ákveði annað, tillaga um skriflega atkvæðagreiðslu þarf 2/3 hluta atkvæða. Einfaldur meirihluti nægir til allra samþykkta, nema þar sem lög kveða á um annað. Kosning í öll embætti landsstjórnar skal vera skrifleg. Sé um fleiri en einn frambjóðanda að ræða í einhver embætti landsstjórnar skal við hvert kjör fella út frambjóðanda sem hlýtur fæst atkvæði við hverja atkvæðagreiðslu, þar til eftir standa eða hafa náð meirihlutafylgi, jafn margir og kjósa skal. Ef ekki næst meirihlutafylgi í embætti landsstjórnar á ofangreindan hátt, skal þá þegar opna fyrir framboð í viðkomandi embætti og kjör fara fram í upphafi 17. dagskrárliðar þingfundar (önnur mál).

12. gr. Frávik frá lögum

Víkja má frá lagagreinum í lögum þessum með 4/5(80%) hluta greiddra atkvæða á þingfundi. Víkja má frá einstökum hlutum lagagreina í lögum þessum með 2/3(66,7%) hluta greiddra atkvæða á þingfundi.

Lögsögumaður ber fram tillögu um frávik þegar reynir á viðkomandi lagagrein eða hluta hennar í dagskrá landsþings. Tillögu um frávik er aðeins hægt að bera upp á landsþingi og hana þarf ekki að senda út með þingboði.

13. gr. Atkvæðagreiðslur utan þingfundar

Landsstjórn er heimilt að leita bréflega samþykkis aðildarfélaga og landsstjórnar um málefni er venjulega heyra undir landsþing. Sjá nánar í reglugerð.

IV. kafli: Stjórn

14. gr. Hlutverk landsstjórnar og heimild til að velja umsjónarmenn

Stjórn hreyfingarinnar nefnist landsstjórn. Á vegum landsstjórnar starfa umsjónarmenn. Tilgangur landsstjórnar er að starfa sem sameiginlegur málsvari JCI félaga á Íslandi gagnvart öðrum aðilum, innlendum sem erlendum, hún ber ábyrgð á starfsemi hreyfingarinnar og skal vinna að tilgangi hennar og markmiðum í samræmi við lög hennar og ákvarðanir landsþings. Landsstjórn lætur þýða og dreifir upplýsingum til aðildarfélaga, leiðbeinir þeim og hefur eftirlit með starfi þeirra og eflir samstöðu og samstarf með þeim. Landsstjórn er heimilt að kveða sér til aðstoðar sérhvert aðildarfélag eða einstaka félaga, sjái hún þess þörf. Umsjónarmenn landsstjórnar eru formenn landsstjórnarnefnda og umsjónarmenn tiltekinna verkefna.

15. gr. Lögsögumaður

Landsforseti skipar lögsögumann hreyfingarinnar við upphaf starfsárs. Lögsögumaður má hvorki vera fulltrúi aðildarfélags né landsstjórnar.

16. gr. Staðfesting á skipan umsjónarmanna og lögsögumanns

Skipan umsjónarmanna og lögsögumanns skal staðfest af framkvæmdarstjórn.

17. gr. Kosning landsstjórnar og stjórnarskipti

Landsstjórn fyrir komandi starfsár er kosin á sérstökum dagskrárlið á landsþingi ár hvert. Í landsstjórn skulu sitja landsforseti, 1–4 varalandsforsetar, landsritari, landsgjaldkeri og viðtakandi landsforseti, sé hann kjörinn í embætti á landsþingi.
Einnig situr fráfarandi landsforseti í landsstjórn án atkvæðaréttar.
Stjórnarskipti fara fram um áramót. Nýkjörinn landsforseti situr landsstjórnarfundi án atkvæðaréttar fram til stjórnarskipta.

18. gr. Landsforseti

Landsforseti er formaður stjórnar. Öll aðildarfélög skulu hljóta heimsókn landsforseta a.m.k. einu sinni á hverju ári. Öll aðildarfélög skulu hljóta heimsókn a.m.k. eins landsstjórnarmanns í upphafi starfsárs og oftar ef þörf krefur.

19. gr. Ákvarðanataka landsstjórnar

Stjórn er ákvörðunarhæf þegar meirihluti stjórnar, að landsforseta meðtöldum, er viðstaddur. Við stjórnarákvarðanir ræður einfaldur meirihluti. Við jöfn atkvæði ræður atkvæði landsforseta. Sjá þó 4. grein.

20. gr. Námskeið fyrir viðtakandi stjórnir

Viðtakandi landsstjórnarmenn hafa umsjón með námskeiði fyrir viðtakandi stjórnir aðildarfélaganna og embættismenn landsstjórnar fyrir 30. nóvember.

21. gr. Prókúruhafar

Prókúruhafar eru landsgjaldkeri og landsforseti. Landstjórn einni er heimilt að skuldbinda hreyfinguna. Skuldbindingar umfram daglegan rekstur þarfnast samþykkis aukins meirihluta framkvæmdastjórnar. Sala á fasteignum hreyfingarinnar er háð samþykki tveggja þinga.

V. kafli: Kjörnefnd

22. gr. Kjörnefnd og tilkynningar um framboð

Í kjörnefnd eiga sæti hverju sinni þrír JCI félagar, skipaðir af landsforseta. Kjörnefnd og/eða landsforseti taka á móti þingboðum og framboðum til embættis landsforseta og annarra landsstjórnarmanna fyrir næsta starfsár. Framboð til landsforseta skulu hafa borist ekki síðar en 1. maí. Framboð til viðtakandi landsforseta og annarra landsstjórnarmanna skulu hafa borist ekki síðar en 1. september og skulu þau lögð fram á landsþingi. Frambjóðendur til landsstjórnar skulu vera fullgildir og löglegir félagar, hafa verið stjórnarmenn í aðildarfélagi, frambjóðandi til embættis landsforseta skal hafa setið í landsstjórn áður, frambjóðendur mega ekki hafa gegnt viðkomandi embætti áður.

VI. kafli: Framkvæmdastjórn

23. gr. Skilgreining á framkvæmdastjórn og lágmarksfjölda funda

Landsstjórn ásamt forsetum aðildarfélaga og umsjónarmönnum landsstjórnar nefnist framkvæmdastjórn. Landsstjórn boðar til framkvæmdastjórnarfunda og skulu þeir vera að minnsta kosti tveir á starfsárinu, í upphafi starfsárs í janúar og að hausti að loknum kjörfundum aðildarfélaganna þó eigi síðar en 1. desember ár hvert. Jafnframt skal boðað til a.m.k. eins stöðufundar á vormisseri.

24. gr. Málefni sem taka skal fyrir á framkvæmdastjórnarfundum

Á framkvæmdastjórnarfundi í janúar skulu fráfarandi landsstjórnar- og umsjónarmenn leggja fram lokaskýrslu og ársreikning hreyfingarinnar, undir sérstökum dagskrárliðum. Fráfarandi landsforseti fer með atkvæði landsstjórnar við afgreiðslu þessara liða. Aðildarfélög skulu einnig leggja fram skriflega skýrslu yfir síðasta starfsár á stöðluðu formi sem landsstjórn útvegar. Afhending verðlauna og viðurkenninga fer fram.

Meginhlutverk framkvæmdastjórnarfundar í janúar eru ákvarðanir um starfið framundan, ásamt afgreiðslu á framkvæmdar- og fjárhagsáætlun hreyfingarinnar. Framkvæmdastjórn situr annan framkvæmdastjórnarfund ásamt viðtakandi framkvæmdastjórn.

Fundargerð síðasta landsþings er staðfest á framkvæmdarstjórnarfundi að hausti. Að loknu landsþingi situr viðtakandi framkvæmastjórn einnig framkvæmdastjórnarfundi

Þingfulltrúar sem ekki hafa málfrelsi á framkvæmdastjórnarfundi geta skilað inn skriflegari athugasemd við fundargerð. Fundargerð síðasta landsþings er staðfest með undirritun landsritara. Þar skal einnig samþykkt endurskoðuð tillaga að stefnumótun næstu þriggja ára.

25. gr. Fundarstjórn, atkvæðavægi og umboð

Framkvæmdastjórn kýs sér fundarstjóra í upphafi hvers fundar. Landsforseti hefur eitt atkvæði og hvert aðildarfélag eitt atkvæði. Landsforseti getur þó veitt öðrum landsstjórnarmanni umboð til að fara með sitt atkvæði. Í forföllum forseta aðildarfélags getur hann veitt öðrum félaga úr sínu aðildarfélagi skriflegt umboð til þess að fara með atkvæði síns aðildarfélags.

26. gr. Áheyrnarfulltrúar

Landsforseti getur boðið áheyrnarfulltrúum að taka til máls á framkvæmdastjórnarfundum.

VII. kafli: Starfsemi

27. gr. Svið tækifæranna

Störf landsstjórnar og aðildarfélaga, utan beinna stjórnarstarfa, eru á fjórum sviðum tækifæra sem skiptast á sama hátt og samþykkt hefur verið af Junior Chamber International.

Svið tækifæranna eru:

  • einstaklings
  • samfélags
  • viðskipta
  • alþjóðasamstarfs

Landsstjórn skal tilgreina hvaða verkefni eða störf teljast tilheyra hverju þessara sviða með sérstakri reglugerð þar um.

28. gr. Leiðbeinendaréttindi og sala námskeiða

Leiðbeinendaréttindi JCI Íslands skiptast í fjögur stig og þurfa leiðbeinendur hreyfingarinnar að hljóta staðfestingu landsstjórnar samkvæmt reglugerð þar að lútandi. Aðildarfélögum og einstaklingum er ekki heimilt að selja námskeið eða leiðbeina á almennum markaði í nafni JCI án samþykkis landsstjórnar.

29. gr. Stefnumótun hreyfingarinnar

Hreyfingin setur fram stefnumið sín í formi langtímaáætlunar til a.m.k. þriggja ára í senn. Tillögur stefnumótunarnefndar skulu sendar stjórnum aðildarfélaga minnst 21 degi fyrir þing. Áætlunin skal rædd á þingfundi landsþings og samþykkt á FS fundi á haustmisseri.

VIII. kafli: Fjárhagur

30. gr. Starfsár og ársreikningur

Starfsár og reikningar hreyfingarinnar er almanaksárið. Skoðaðir reikningar ásamt fylgiskjölum skulu vera aðgengilegir hjá gjaldkera JCI Íslands í aðsetri hreyfingarinnar til skoðunar fyrir félagsmenn í að minnsta kosti fjóra tíma að lágmarki tveimur dögum fyrir 1. framkvæmdastjórnarfund. Skoðunarmenn skila skýrslu sinni á 1. Framkvæmdastjórnarfundi.

IX. kafli: Félagsgjöld

31. gr. Félagsgjöld, ákvörðun og útreikningur

Upphæð félagsgjalda og skráningargjalds til JCI Íslands skal ákveða á landsþingi fyrir komandi starfsár. Félagatal um áramót ákvarðar fjölda félaga sem greitt er af til JCI Íslands næsta ár. Aldrei er þó greitt af færri félögum en staðfestir voru á félagatali til landsþings. Heiðursfélagar JCI Íslands undir fertugu eru undanþegnir greiðslu félagsgjalda til JCI Íslands og teljast fullgildir félagar. Verði vanskil á greiðslu félagsgjalda, leggjast á hæstu lögleyfðir dráttarvextir. Sé um vanskil að ræða missir viðkomandi aðildarfélag atkvæðisrétt fulltrúa sinna á landsþingi, framkvæmdastjórnarfundum og við bréflega atkvæðagreiðslu. Ný og endurreist aðildarfélög greiði þriðjung félagsgjalda fyrsta starfsár. Nánari útfærsla á greiðslufyrirkomulagi skal sett í reglugerð.

X. kafli: Sjóðir

32. gr. Framfarasjóður, hlutverk, stjórn og breyting á höfuðstól

Stjórn sjóðsins skal skipuð þremur félögum, þar af tveimur kjörnum á landsþingi til tveggja ára í senn, kjörnir fulltrúar geta ekki verið úr landsstjórn né forsetar aðildarfélaga, þriðji stjórnarmaðurinn er sitjandi landsforseti hvers tíma eða hans fulltrúi úr landsstjórn. Stjórnin kýs sér formann. Sjóðsstjórn skal hafa umsjón með ávöxtun höfuðstóls ásamt því að fjalla um fjárveitingar úr sjóðnum, sjá nánar reglugerð. Ekki er heimilt að skerða höfuðstól sjóðsins nema með samþykki 2/3 hluta þingfundar landsþings. Tillaga að breytingu á höfuðstól verður að berast 28 dögum fyrir landsþing og send út með þingboð. Yfirlit yfir stöðu, ávöxtun og fjárveitingar sjóðsins skal lagt fram á landsþingi ár hvert.

33. gr. Nýsköpunarsjóður, hlutverk, stjórn og breyting á höfuðstól

Nýsköpunarsjóður JCI Íslands er lánasjóður með þann tilgang að veita lánsfé til verkefna sem unnin eru af fullgildum félagsmönnum JCI, til framdráttar JCI á Íslandi. Stjórn sjóðsins skal skipuð þremur fulltrúum, þar af tveimur kjörnum á landsþingi til tveggja ára í senn, kjörnir fulltrúar geta ekki setið í framkvæmdastjórn hreyfingarinnar. Heimilt er að annar kjörinna fulltrúa sé aðili utan JCI. Þriðji stjórnarmaðurinn er sitjandi landsforseti hvers tíma eða hans fulltrúi úr landsstjórn. Stjórnin kýs sér formann. Sjóðsstjórn heyrir undir framkvæmdastjórn JCI Íslands. Ekki er heimilt að skerða höfuðstól sjóðsins nema með samþykki aukins meirihluta þingfundar landsþings, en slík tillaga ásamt rökstuðningi skal berast 28 dögum fyrir landsþing og vera send út ásamt þingboði. Fjárveitingar úr sjóðnum eru undanþegnar þessu ákvæði þar sem slíkt skoðast sem lán með endurgreiðslukröfu. Yfirlit yfir stöðu, ávöxtun og fjárveitingar sjóðsins skal lagt fram á landsþingi ár hvert.

XI. kafli: Senatorar og heiðursfélagar

34. gr. Senator, skilgreining

Aðildarfélag getur veitt félagsmanni sem hefur starfað ötullega og óeigingjarnt fyrir hreyfinguna viðurkenninguna JCI Sentaor. Sá sem hlýtur viðurkenninguna Senator er ævifélagi í JCI en að öðru leyti gilda sömu reglur og um aðra félagsmenn.

35. gr. Umsókn um viðurkenningu Senators

Senatoraumsókn skal gerð af forseta aðildarfélags og afhent landsforseta til staðfestingar. Allar Senatoraumsóknir þurfa samþykki úthlutunarnefndar sem samanstendur af landsforseta, forseta hins íslenska senats og fráfarandi landsforseta.

36. gr. Heiðursfélagi, skilgreining

Félagsmaður sem náð hefur 1.000 stigum á JCI brautinni hefur öðlast rétt til tilnefningar sem heiðursfélaga JCI Íslands.

37. gr. Umsókn um viðurkenningu heiðursfélaga

Forseti og ritari aðildarfélags skulu senda til landsforseta JCI braut þeirra sem öðlast hafa réttinn. Tilnefningar skulu berast minnst 30 dögum fyrir útnefningardag. Landsforseti og landsritari skulu fjalla um framkomnar staðfestingar frá aðildarfélögum og taka ákvörðun um útnefningu.

XII. kafli: Aðsetur hreyfingarinnar

38. gr. Aðsetur hreyfingarinnar, JCI húsið og hússtjórn

Aðsetur hreyfingarinnar er í Reykjavík. JCI húsið er húseignin við Hellusund 3, 101 Reykjavík. Stjórn JCI hússins skal skipuð landsforseta, fráfarandi landsforseta, tveimur senatorum skipuðum af landsstjórn ár hvert og einum félaga sem kosinn er á landsþingi JCI Íslands til tveggja ára í senn. Stjórn skiptir með sér verkum í upphafi starfsárs. Hver fulltrúi í stjórn hússins skal að hámarki sitja í stjórninni í sex ár í senn. Endurkjósa má formann þótt hann hafi gegnt embættinu áður og mest má hann starfa í hússtjórn í sex ár í senn. Störf hússtjórnar skulu skilgreind nánar í reglugerð.

XIII. kafli: Lagabreytingar og önnur ákvæði

39. gr. Lagabreytingar

Tillögur um breytingar á lögum hreyfingarinnar skal senda landsstjórn skriflega ásamt rökstuddri greinargerð, í síðasta lagi 28 dögum fyrir þing ár hvert. Breytingartillaga skal birt orðrétt í fundarboði þess þings er ræðir hana. 2/3 hluta atkvæða þarf til breytinga á lögum. Landsstjórn setur reglugerðir.

40. gr. Reglugerðir

Heimilt er að kveða nánar á um starfsemi hreyfingarinnar í reglugerð og skulu breytingar á þeim kynntar á framkvæmdastjórnarfundi. Reglugerðir taka ekki gildi fyrr en búið er að tilkynna þær framkvæmdastjórn með sannanlegum hætti.

41. gr. Þýðing á lögum

Lög þessi skulu einnig þýdd á ensku. Lögin á íslensku gilda ef upp kemur misræmi milli þeirra og þýðingarinnar.

42. gr. Slit hreyfingarinnar, ákvörðun og ferli

Ákvörðun um slit hreyfingarinnar skal tekin af tveimur þingum í röð. Til samþykktar þarf 2/3 hluta atkvæða á báðum þingum. Seinna þingið skal ákveða um ráðstöfun eigna eftir tillögum landsstjórnar.

43. gr. Fundarsköp og landslög

Lög um félög og fundarsköp ráða þar sem fyrirmæli skortir í lögum þessum.


Lög með breytingum frá 59. landsþingi, haldið á rafrænu formi gegnum Zoom laugardaginn 26. september 2020

Staðfesting:
Guðlaug Birna Björnsdóttir, landsforseti JCI Íslands 2020 og Kjartan Hansson lögsögumaður JCI Íslands 2020