Föstudagsnámskeiðið

Platínum reglan

Þekkir þú persónuleikann þinn? Áttar þú þig á því hvernig aðrir vilja eiga samskipti?

Sigurður Sigurðsson ætlar að leiða okkur í gegnum hina mismunandi persónuleika og komast að því hver þinn persónuleiki er. Dyr opnast þegar þú þekkir betur sjálfan þig sem manneskju.
Skaraðu fram úr í:
– Viðskiptalífinu og atvinnumarkaðinum
– Samskiptum við aðra
– Tengslanetinu
– Með vinum/á deiti
– Lærðu á sjálfa/n þig!
Þetta er stórskemmtilegt námskeið sem slær alltaf í gegn!
Leiðbeinandi er Sigurður Sigurðsson. Félagi, varalandsforseti og senator JCI

Laugardagsnámskeiðið

Leiðtogar framtíðarinnar

Hvaða sýn og vinnubrögð þurfa framtíðarleiðtogar að tileinka sér? Hvaða eiginleika þurfa þeir að hafa umfram þá eiginleika sem krafist er nú til dags?

Hvers vegna er þörf á þessum eiginleikum á næstu árum en hefur áður verið?

Leitast verður við að svara þessum spurningum ásamt fleirum áskorunum, kannað hvernig skal viðhalda okkar bestu eiginleikum í hinu daglega amstri, og ekki síst hvernig við fáum fólk með okkur og taka þátt.

Leiðbeinandi er Ásgeir Jónsson fyrirlesari og eigandi Takmarkalaust líf

Um Ásgeir:

Ásgeir Jónsson stofnaði fyrirtækið Takmarkalaust Líf ehf. á vormánuðum árið 2011. Það hafði verið draumur hans í þónokkurn tíma að stofna eigið fyrirtæki sem hefði meðal annars að markmiði sínu að auka lífsgæði fólks með því að kynna það fyrir jákvæðri sýn á lífið og tilveruna og sýna því fram á hvað breytt viðhorf geta breytt líðan okkar. Í störfum sínum hefur Ásgeir öðlast mikla stjórnunarreynslu og nýtir hann hana í þeim námskeiðum sínum sem lúta að stjórnun, samskiptum, tíma- og fundarstjórnun ásamt framúrskarandi þjónustu, svo eitthvað sé nefnt.

Ásgeir útskrifaðist sem iðnrekstrarfræðingur af rekstrarsviði frá Háskólanum í Reykjavík og með B.Sc.-gráðu í vörustjórnun (e. logistics). Ásgeir lauk síðar MBA-námi frá Háskólanum í Reykjavík samhliða vinnu sinni hjá Ölgerðinni og þá með áherslu á mannauðsstjórnun. Ásgeir er með NLP Practitioner gráðu frá BrUen og er alþjóðlega vottaður markþjálfi (e. coach) frá Háskólanum í Reykjavík (CEG Core Essentials Graduate). Undanfarin ár hefur Ásgeir haldið fjölda fyrirlestra og námskeiða fyrir stærstu félagasamtök og fyrirtæki landsins. Þeir einstaklingar sem hafa notið leiðsagnar hans skipta hundruðum.